Málefnasamningur
Beinnar leiðar, Framsóknar og Samfylkingar í Reykjanesbæ kjörtímabilið 2022 – 2026

Horfum til framtíðar
Reykjanesbær er fjórða stærsta bæjarfélag landsins. Á undanförnum árum hefur átt sér stað mikill viðsnúningur í rekstri Reykjanesbæjar og ljóst að nú þarf að skipuleggja til framtíðar og viðhalda kröftugri uppbyggingu.
Mikil fólksfjölgun og breytt samfélagsmynstur kallar á aukna þjónustu og hraða uppbyggingu innviða. Brýnt er að mæta þeirri þörf en í senn að tryggja áfram trausta fjármálastjórn.
Meirihluti Beinnar leiðar, Framsóknar og Samfylkingar mun leiða mikilvæg verkefni á næstu árum í góðu samstarfi við fulltrúa allra flokka í bæjarstjórn og íbúa Reykjanesbæjar. Það eru bjartir tímar framundan og saman munum við gera gott samfélag enn betra.
Fjölmenningarsamfélagið Reykjanesbær
Reykjanesbær er eitt stærsta fjölmenningar- samfélag landsins, tækifærin sem felast í því eru fjölmörg. Meirihluti Beinnar leiðar, Framsóknar og Samfylkingar mun vinna markvisst að því að efla samstarf við atvinnulífið og félagasamtök í bænum með það fyrir augum að samfélagið allt styðji þá aðila, sem kjósa að setjast hér að, til virkni í samfélaginu. Áfram verður unnið að því að efla hlut fjölmenningar í daglegu lífi í bænum ásamt því að fræða um sögu, menningu og tækifærin í Reykjanesbæ. Tryggja þarf að samvinna milli ólíkra sviða taki mið af fjölbreyttum og ólíkum þörfum bæjarbúa og gera þarf átak í því að sú þjónusta sem Reykjanesbær veitir endurspegli samsetningu bæjarbúa.
Fjármál og stjórnsýsla
Árið 2020 var stefna Reykjanesbæjar til ársins 2030 kynnt og unnið hefur verið að framgangi og innleiðingu hennar frá þeim tíma. Stefnan kveður á um að allar ákvarðanir séu teknar á grundvelli framtíðarsýnar Reykjanesbæjar og er hún viðmið allra starfsmanna bæjarins til lengri tíma. Framtíðarsýn Reykjanesbæjar til ársins 2030 er að “Reykjanesbær sé fjölskylduvænn bær sem þroskar og nærir hæfileika allra í gegnum öflugt skóla-, íþrótta- og menningarstarf. Íbúar sinni fjölbreyttum störfum í vistvænu fjölmenningarsamfélagi sem einkennist af framsækni, virðingu og eldmóði.” Málefnasamningur Beinnar leiðar, Framsóknar og Samfylkingar styður við þessa framtíðarsýn og tilgreinir verkefni sem ætlað er að gera framtíðarsýn Reykjanesbæjar að veruleika.
Grundvöllur þess að samfélagið færist í þá átt sem framtíðarsýnin boðar er að starfsfólk Reykjanesbæjar sé vel í stakk búið til þess að takast á við þau verkefni sem tilgreind eru í málefnasamningi og stefnu Reykjanesbæjar. Reykjanesbær á að vera framúrskarandi vinnustaður sem býður öllum starfsmönnum upp á möguleika til að eflast í starfi sem og tækifæri til að þroskast og vaxa sem einstaklingar. Unnið verður að því að bæta starfsumhverfi með fjölbreyttum leiðum. Reykjanesbær á að vera leiðandi í því að bjóða upp á faglegt og skapandi starfsumhverfi. Meirihluti Beinnar leiðar, Framsóknar og Samfylkingar mun láta gera úttekt á stjórnkerfi bæjarins og ferlum innan stjórnkerfisins, greina styrkleika og úrbótatækifæri og í framhaldinu vinna að því með starfsfólki Reykjanesbæjar að efla Reykjanesbæ sem kröftugan og eftirsóknarverðan vinnustað. Þannig náum við árangri sem samfélag og þannig veitum við íbúum framúrskarandi þjónustu á öllum sviðum.
Mikilvægt er að öll uppbygging sé framkvæmd á ábyrgan og sjálfbæran máta og að skuldaviðmið sé innan lögbundinna marka. Auknu svigrúmi í fjármálum verður forgangsraðað í átt að aukinni velferð íbúa og öflugri uppbyggingu innviða.
Leitum leiða til að halda álögum á íbúa í lágmarki eins og hægt er í takt við fjárhagsgetu sveitarfélagsins.
Skipurit bæjarins verður endurskoðað og verkefni ráða rýnd með það fyrir augum að styrkja ráðin og þá málaflokka sem fjallað er um innan þeirra.
Nýjungar verða áfram innleiddar í stjórnsýslu sem miða að því að auka skilvirkni, efla þjónustustig og auka enn frekar upplýsingaflæði til íbúa. Áhersla verður lögð á skilvirka stafræna þjónustu.
Þegar kemur að fjárframlögum frá ríkinu munu framboðin þrjú halda áfram að vinna að því að leiðrétta hlut Suðurnesja.
Almenningssamráð verður aukið á kjörtímabilinu meðal annars með samstarfi við hverfaráð með það að markmiði að tengja betur saman þarfir íbúa og stjórnsýslu bæjarins.
Innviðir, umhverfi og skipulag
Leitað verði leiða til að hefja undirbúning að uppbyggingu öflugs miðbæjarkjarna í samvinnu sveitarfélagsins og einkaaðila. Skipuleggjum og þróum miðbæ í Reykjanesbæ þar sem blanda af verslun, þjónustu og afþreyingu verður í hávegum höfð. Ráðist verði í uppbyggingu í sveitarfélaginu þar sem verkefni verða kostnaðarmetin og tímasett í sérstakri aðgerðaáætlun.
Umhverfis- og loftslagsstefna Reykjanesbæjar verði innleidd. Reykjanesbær á að tryggja að í boði séu fjölþættir möguleikar þegar kemur að móttöku úrgangs. Gæta þarf þess að auðlindir verði ekki að úrgangi að óþörfu. Látum hringrásarhagkerfið virka.
Reykjanesbær nái því markmiði að kolefnisjafna starfsemi sína með fjölbreyttum leiðum. Gerð verði áætlun í samstarfi við atvinnulífið um áframhaldandi skógræktarátak með það að markmiði að kolefnisjafna mengun og bæta útivistarmöguleika bæjarbúa enn meir.
Leiðakerfi almenningssamgangna verður yfirfarið með það að markmiði að börn geti sótt íþrótta-, tómstunda- og félagsstarf til og frá heimilum sínum ásamt því að tengingar við Keflavíkurflugvöll sem og höfuðborgarsvæðið verði bættar í samstarfi við hagaðila.
Unnið verði að bættu aðgengi fatlaðs fólks í Reykjanesbæ meðal annars með því að taka þátt í verkefninu Römpum upp Ísland.
Áfram verði gott framboð lóða og uppbygging á vegum óhagnaðardrifinna leigufélaga verði tryggð. Samvinna þarf að eiga sér stað milli ríkis og sveitarfélags um að fyrirhuguð uppbygging í Ásbrúarhverfi verði tímasett og undirbúin á kjörtímabilinu. Vinnum í því að fá lóðir ríkisins í hverfinu til sveitarfélagsins.
Kraftur verði settur í undirbúning að endurnýjun og framtíðarskipulagi fráveitumála í Reykjanesbæ.
Tengjum saman Hafnir og Ásbrú, hefjum framkvæmdir á göngu- og hjólastígum milli sveitarfélaga á Suðurnesjum og fylgjum eftir að hjólreiðaáætlun Reykjanesbæjar komist í gagnið. Hjólreiðaáætlunin gerir ráð fyrir greiðri hjólabraut með lífæðinni sem gengur í gegnum bæinn.
Ræktum upp Reykjanesbæ, í samvinnu við hagsmunasamtök og aðila á svæðinu verði hafist handa við umfangsmikið ræktunarátak. Byggjum upp skjólsælla og fallegra bæjarfélag.
Eflum tækifæri til útivistar á Reykjanesi, bætt aðgengi og kynning á svæðinu fjölgar tækifærum til útivistar. Sólbrekkuskógur og Seltjörn er frábært útivistarsvæði rétt við útjaðar bæjarins, tengjum svæðið við bæinn með göngu- og hjólastíg og byggjum það upp. Hlúum að núverandi svæðum líkt og Njarðvíkurskógum og Vatnsholtinu.
Vinnum að útivistaráætlun fyrir hvert hverfi. Hlúum að grónum svæðum og búum til skapandi og skemmtilegri umgjörð um þau.
Áhersla verði lögð á að umferðarflæði um bæinn verði öruggt, fara þarf í aðgerðir á umferðarþyngstu götum bæjarins með viðeigandi hagaðilum. Aðgerðir á svæðum líkt og við Njarðarbraut og Grænásbrekku verði settar í forgang.
Fyrir liggur að árið 2029 verði tvöföldun Reykjanesbrautar upp að Rósaselstorgi lokið, fylgja þarf eftir að sú tímaáætlun standist sem og að umferð um Reykjanesbrautina hafi sem minnst truflandi áhrif á íbúa Reykjanesbæjar. Nýta þarf þann hönnunarfasa sem framundan er til að tryggja öruggar tengingar milli Ásbrúar- og Ásahverfis og greitt aðgengi inn í bæinn við Aðaltorg.
Heilbrigðis- og velferðarmál
Leiðum samtalið við HSS og vinnum saman að því markmiði að efla grunnheilbrigðisþjónustu. Látum notendaráð HSS verða að veruleika. Endurnýjun á núverandi aðstöðu heilsugæslunnar er forgangsmál sem þarf að ýta á eftir, bæta þarf aðgengi að sálfræðiþjónustu HSS, stytta biðlista og efla heildræna samvinnu í velferðarmálum.
Lögð verður áhersla á áframhaldandi farsælt samstarf heimahjúkrunar HSS og heimaþjónustu sveitarfélagsins.
Tryggjum að framkvæmdir nýrrar heilsugæslu í Reykjanesbæ fari af stað sem allra fyrst og að bráðabirgðahúsnæði verði fengið undir starfsemina á meðan beðið er eftir því húsnæði. Meirihluti Beinnar leiðar, Framsóknar og Samfylkingar er opinn fyrir fjölbreyttum rekstarformum, fyrst og fremst þarf þjónustan að vera tiltæk og áreiðanleg.
Útbúin verði aðgerðaráætlun sem miðar að því að efla sérfræðiþjónustu í sveitarfélaginu, sérstaklega þarf að horfa til þarfa barna og ungmenna í þeim efnum.
Framkvæmdir við byggingu nýs hjúkrunarheimilis í Reykjanesbæ eru að hefjast og hefja þarf strax undirbúning að því næsta.
Reykjanesbær leiði árlega geðræktarviku ásamt því að aukin áhersla verði lögð á forvarnir líkamlegrar og andlegrar heilsu í samstarfi við viðeigandi hagaðila.
Fjölbreytt virkniúrræði þurfa að vera til staðar til að mæta þeim hópi sem þarf stuðning samfélagsins til sjálfshjálpar, leitað verður leiða til að styrkja þau úrræði sem nú þegar eru til staðar ásamt því að grípa ný tækifæri á þessum vettvangi og koma þeim í framkvæmd.
Á kjörtímabilinu verður unnið markvisst að því að fjölga búsetuúrræðum til að mæta þeim einstaklingum í samfélaginu sem það þurfa.
Notendaráð fatlaðs fólks verður eflt.
Fræðslu- og uppeldismál
Umfangsmestu verkefni sveitarfélagsins eru fræðslu- og uppeldismál. Ný menntastefna leit dagsins ljós haustið 2021, tryggja þarf að markmiðum hennar verði náð.
Umbótastarf innan menntasamfélagsins þarf að halda áfram af sama krafti og á liðnum árum. Leitum leiða til að styðja við fagmennsku og vellíðan. Með því móti verða áfram til staðar öflugir starfshópar sem leiða þróunarstarf í menntamálum. Innleidd verði samræmd forvarnastefna fyrir alla grunnskóla Reykjanesbæjar þar sem lögð verður áhersla á geðheilbrigði og kynheilbrigði sem og fræðslu um skaðsemi ávana- og fíkniefna.
Háskólamenntun í heimabyggð. Leitum leiða til að skapa enn fjölbreyttari tækifæri til menntunar í samvinnu við háskólana.
Hefjum byggingu á nýjum grunnskóla í hjarta Ásbrúarhverfis.
Aukum framlög til Nýsköpunar- og þróunarsjóðs sem gegnir mikilvægu hlutverki í mennta-samfélaginu, komum upp Fab-Lab í samvinnu við hagaðila.
Setjum kraft í að bæta umhverfi á skólalóðum. Það gagnast ekki bara skólunum heldur öllum í hverfinu.
Unnið verður að því að styrkja stoðþjónustu skólanna með fjölbreyttum hópi fagfólks.
Förum í átak í góðu samstarfi við dagforeldra til að tryggja börnum dagvistun frá 12 mánaða aldri til að gera foreldrum sem það kjósa kleift að taka þátt í atvinnulífinu af fullum krafti.
Festum í sessi þjónustusamninga við dagforeldra til að styðja þá og þeirra þjónustuþega.
Skoðum leiðir til að koma á fót ungbarnaklasa þar sem dagforeldrar geta starfað saman og samnýtt aðstöðu. Uppbyggingaráformum í leikskólamálum verður fylgt eftir og 18 mánaða börnum tryggð leikskólavist.
Samstarf um sálfræðiþjónustu við Fjölbrautaskóla Suðurnesja (FS) verður áfram til staðar. Leitum fleiri leiða til að mæta þeim hópi sem þarf stuðning í samstarfi Reykjanesbæjar og FS.
Atvinnu-, markaðs- og ferðamál
Hlutverk Reykjanesbæjar er að skapa fyrirtækjum sem hér starfa framúrskarandi starfsumhverfi sem laðar að öflugt og hæft starfsfólk. Reykjanesbær þarf að leiða vagninn og gera fyrirtækjum á svæðinu kleift að blómstra samhliða því að vinna markvisst að því að auka fjölbreytni í atvinnulífinu meðal annars með sértækum stuðningi við nýsköpun og frumkvöðla.
Markaðssetning Reykjanesbæjar þarf að taka mið af því hvernig samfélagið er uppbyggt. Í samvinnu við atvinnulífið þarf að markaðssetja þau einkenni og þá styrkleika sem gera Reykjanesbæ að einstöku sveitarfélagi. Reykjanesbær á að leiða samstarf sveitarfélaga á Suðurnesjum þegar kemur að atvinnu- og kynningarmálum á svæðinu. Leita þarf samstarfs við helstu aðila í ferðaþjónustunni. Vinnum að uppbyggingu ferðamannastaða á Reykjanesi meðal annars með uppbyggingu þjónustumiðstöðvar og eflingu Reykjanes Geopark í samstarfi sveitarfélaga á Suðurnesjum.
Styðjum við að skipaþjónustuklasi rísi við Njarðvíkurhöfn.
Gæta þarf að því að öll atvinnuuppbygging í samfélaginu sé í sátt við umhverfið, mengandi stóriðja á ekki heima í Reykjanesbæ. Vinna þarf áfram að nýsköpunartengdri uppbyggingu í Helguvík í samstarfi við ríki og einkaaðila.
Störf án staðsetningar eru hluti af nútíma atvinnulífi. Byggjum upp atvinnulífskjarna í sveitarfélaginu í samstarfi við ríkið og atvinnulífið.
Tryggjum raforkuöryggi með hraðri uppbyggingu Suðurnesjalínu 2.
Uppbygging á Keflavíkurflugvelli og rekstur hans snertir íbúa Reykjanesbæjar á mörgum sviðum. Íbúar Reykjanesbæjar leggja til vinnuafl, loftrými, vegi og aðra innviði sem stórir vinnustaðir þurfa á að halda. Reykjanesbær sem stærsta sveitarfélagið á svæðinu og mikilvægur hagsmunaaðili að rekstrinum á að hafa sterkari tengingu inn í daglegan rekstur þar.
Stærstu fyrirtækin í samfélaginu hafa mikið um það að segja hvernig bæ við byggjum. Leitum leiða til þess að þau verði öll virkir þátttakendur í samfélaginu og styðji við menningar-, íþrótta- og tómstundastarf.
Unnið verði að því að Reykjanesbær eigi sæti í stjórnum þeirra ríkisfyrirtækja og stofnana sem hafa starfsemi á svæðinu.
Hefjum kröftugt samstarf við Vinnumálastofnun, VIRK og aðra tengda aðila til að koma öllum sem geta í virkni eða vinnu, nýtum til þess fjölþættar leiðir líkt og átaksverkefni í atvinnumiðlun sem unnið var að á árinu 2021.
Nýtum markaðsstefnu sveitarfélagsins til að laða að fyrirtæki sem nýta sér vistvæna orku, nálægð við alþjóðaflugvöll og fyrsta flokks hafnaraðstöðu.
Menningar-, íþrótta- og tómstundamál
Farið verður í endurskoðun á samvinnu Reykjanesbæjar og þeirra félaga sem koma að íþrótta-, menningar- og tómstundastarfi með það fyrir augum að styðja sem best við starfsemi félaganna. Tryggjum að öll börn og ungmenni hafi jöfn tækifæri til þátttöku og styðjum við að félög sem starfa í Reykjanesbæ séu fremst í flokki á landsvísu. Öll vinna við endurskoðun mun fara fram í samráði og samstarfi við þá hagsmunaðila sem hlut eiga að máli.
Meirihluti Beinnar leiðar, Framsóknar og Samfylkingar ætlar að halda áfram að vinna að framtíðarskipulagi í íþrótta- og tómstundamálum eftir skýrslu sem unnin var á síðasta kjörtímabili. Í því felst m.a. áframhaldandi uppbygging íþróttamannvirkja í samvinnu við íþrótta-hreyfinguna.
Verkefnið Allir með! verði fest í sessi. Áherslu þarf að leggja á að virkja sem flesta einstaklinga í samfélaginu til þátttöku. Það er ekki hvað síst mikilvægt í fjölmenningarsamfélagi líkt og Reykjanesbær er. Þátttaka í íþróttum, tómstunda- og menningarstarfi skiptir miklu máli í þeim efnum. Aðgangur íbúa að íþróttamannvirkjum bæjarins verði aukinn.
Hvatagreiðslur verða hækkaðar á kjörtímabilinu. Öll börn frá fjögurra ára aldri njóta hvatagreiðslna frá árinu 2023. Unnið verður að útfærslu á hvatagreiðslum fyrir eldra fólk.
Frístundastefna Reykjanesbæjar verður mótuð og mun hún meðal annars fjalla um tómstundir eldra fólks, uppbyggingu félagsmiðstöðva í hverfum ásamt afþreyingarmöguleikum fjölskyldna í bænum.
Frístundabíll hefur breytt miklu varðandi tómstundaiðkun yngri barna, styrkja þarf þjónustuna og sjá til að hún nái einnig til eldri barna samhliða því að æfingatímar og þjónustan séu samræmd eins og kostur er.
Styðjum við áframhaldandi faglegt starf ungmennaráðs, Fjörheima og 88 hússins.
Fáum íþróttadeildir í samstarf og mótum stefnu um afreksstyrki til handa íþróttadeildum.
Festum heilsueflingu eldra fólks í sessi til framtíðar.
Tryggjum að félög sem leggja áherslu á útivist í sinni starfsemi hafi aðgengi að útivistarsvæðum.
Endurskoðum húsnæði menningarstofnana og tryggjum að framtíðarstefnur í menningarmálum verði að veruleika.
Lögð verður áhersla á víðtækari stuðning við fjölbreytta menningarviðburði, framlög í menningarsjóð verða aukin.
Nýtum afþreyingarmöguleika sem nú þegar eru til staðar eins og heilsustíga og útivistarsvæði enn betur með fjölbreyttum leiðum. Leitum til íbúa og komum hugmyndum þeirra í framkvæmd.